skora.hi.is

Þátttaka í rannsókninni fólst í eftirfarandi fjórum þáttum.

1. Spurningalisti: Þátttakendur verða beðnir að fylla út einn stuttan spurningalista. Spurningalistinn sem hannaður er fyrir aldur þátttakenda verður lagður fyrir til að fá upplýsingar um bakgrunnsþætti s.s. aldur, æfingaaldur í knattspyrnu, fjöldi skipulagðra æfinga, andlega líðan (frammistöðukvíða, líðan, líkamsímynd), félagstöðu, meiðslatíðni, lifnaðarhætti og kynþroska.

 

2. Afkastagetumælingar: Samtals eru 6 mælingar sem skoða þol, krafti og snerpu en mælingarnar eru: 40M spretthlaupspróf, lendingarpróf, stökkkraftsmæling, jafnvægi og hreyfistjórn og staðlað keilupróf. Einnig verður Yo-Yo IR1 mæling sem kannar loftháð þol fyrir knattspyrnumenn, prófið er hámarkspróf þar sem þátttakendur hlaupa þar til þeir geta ekki (eða vilja ekki) hlaupið lengur.

 

Þessir tveir þættir verða framkvæmdir á æfingasvæði þíns knattspyrnufélags (á skipulögðum æfingatíma). Aðeins þarf að mæta tilbúin á æfingu en ekki er þörf á neinum búnaði.

 

3. Röntgenrannsókn: Allir þátttakendur gangast undir eina röntgenmynd af vinstri úlnlið til þess að meta líffræðilega þroska á grundvelli beinaldurs. Faglærður geislafræðingur ber ábyrgð á röntgenrannsókninni og tryggir að unnið sé að geislavörnum svo að þátttakendur verði fyrir sem minnstri geislun við rannsóknina. Náttúruleg bakgrunnsgeislun er í öllu okkar umhverfi. Hún kemur frá himingeimnum, jarðskorpunni og geislavirkum efnum í líkama okkar. Þessi geislun er mjög lítil á Íslandi og mun minni en annars staðar á Norðurlöndum. Áætlað geislaálag í rannsókninni samsvarar því um 5. klst. geislaálagi vegna náttúrulegrar umhverfisgeislunar á dag og 0,05% á ársvísu. Miðað við þá geislun sem hér um ræðir er það mat Geislavarna ríkisins að áhætta vegna þátttöku í rannsókninni sé hverfandi.

 

4. Beinþéttnimæling: DXA-mæling segir bæði til um beinþéttni og fitudreifingu í líkamanum. Gera má ráð fyrir að mælingin taki u.þ.b. 5 mínútur á hvern einstakling en þátttakendur liggja á bekk á meðan rannsóknin fer fram og líkaminn er skannaður. Við beinþéttnimælinguna er notaður röntgengeisli, en geislun vegna þátttöku í rannsókninni er sambærileg við 2–3 daga náttúrlega bakgrunnsgeislun á Íslandi. Náttúruleg bakgrunnsgeislun er í öllu okkar umhverfi. Hún kemur frá himingeimnum, jarðskorpunni og geislavirkum efnum í líkama okkar. Þessi geislun er mjög lítil á Íslandi og mun minni en annarsstaðar á Norðurlöndum. Miðað við þá geislun sem hér um ræðir er það mat Geislavarna ríkisins að áhætta vegna þátttöku í rannsókninni sé hverfandi

 

Þessar tvær mælingar verða framkvæmdar á röntgenrannsóknarstofu í Hjartavernd, Holtasmára 1-2, 201 Kópavogi. Mæta þarf með forráðamanni en heimsóknin tekur að meðaltali um 20 mínútur.