Knattspyrna er margþætt íþróttagrein þar sem leikmenn þurfa m.a. að búa yfir líkamlegum, andlegum, tæknilegum sem og taktískum eiginleikum. Síðustu áratugi hefur konum fjölgað gríðarlega í heimi íþróttanna en þessi aukning hefur hvatt til frekari rannsókna um frammistöðu og færni kvenna í íþróttum. Á sama tíma er mikill uppgangur og velgengni í íslenskri kvennaknattspyrnu og hefur þátttakendum á öllum aldri fjölgað jafnt og þétt.
Fyrri hluta árs (8. apríl – 15. Júní 2024) mun hópur vísindafólks frá Háskóla Íslands í samvinnu við vísindamenn frá Noregi og Svíþjóð fara af stað með rannsókn á atgervi, andlegri og félagslegri heilsu knattspyrnustúlkna fæddar árið 2012 sem eru í 5. flokki (eldra ári). Þátttakendur eru frá 10 knattspyrnufélögum, öll á höfuðborgarsvæðinu og verðum um 250 knattspyrnu stúlkum boðin þátttaka. Þessum stúlknahóp verður fylgt eftir í 4 ár og boðaðar aftur í rannsóknina vorið 2026 og að lokum vorið 2028.
Í rannsókninni verða framkvæmdar ýmsar mælingar á atgervi eins og þrek, snerpa, hraði, kraftur og færni. Sérstök áhersla verður á að skoða líkamssamsetningu, kynþroska, beinþroska stúlkna og áhrif tíðahrings á tíðni meiðsla og brottfall stúlkna úr knattspyrnu. Þessir þættir verða einnig tengdir við andlega líðan (frammistöðukvíða, sjálfsímynd og fl.), líkamlega heilsu, þjálfun og aðra lífstílsþætti. Fjöldi æfinga, brottfall, tíðni íþróttameiðsla og almennir lifnaðarhættir verða einnig skoðað með spurningalista.